Sýndarveruleiki mun hafa sífellt stærra hlutverk í tilveru okkar á næstu árum að mati fulltrúa fyrirtækja í geiranum. Ekki eru mörg ár þangað til að tölvuskjárinn verður kominn allt í kringum okkur. Tæknin gæti skapað nýjar víddir, meðal annars í ferðamennsku.

Í síðustu viku var haldinn pallborðsfundur um Ísland sem vettvang fyrir fyrirtæki á sviði sýndarveruleika. Þar ræddu fulltrúar fjögurra íslenskra sýndarveruleikafyrirtækja um hraða þróun þessarar tækni, sem virðist munu hafa sífellt meiri áhrif á samfélagið á næstu árum.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Reynir Harðarson, einn af stofnendum sýndarveruleikafyrirtækisins Sólfars, að minnst sex íslensk fyrirtæki starfi nú á sviði sýndarveruleika og að um 15-20 manns starfi í geiranum hér á Íslandi. Hann segir Ísland klárlega vera orðið að miðstöð á sviði sýndarveruleika.

„Það er til dæmis alveg mjög furðulegt að þegar Sony er að kynna PlayStation, að tveir af átta leikjum sem þeir eru að kynna fyrir sýndarveruleika eru íslenskir. Það er náttúrulega stórmerkilegt í raun og veru,“ segir hann.

Reynir sagði að maður skilji ekki hversu raunverulegur búnaðurinn er fyrr en maður prófar hann. Til að mynda sé óþægilegt þegar sýndarmanneskja komi svo nálægt manni að manni finnist hún vera að troða sér upp að manni. „Möguleikar þessarar tækni eru hreinlega sláandi. Þetta er jafnvel ógnvænlegt. Ef okkur tekst það sem við stefnum að á endanum gæti þetta gert út um siðmenninguna. Við gætum skapað eitthvað sem er betra en raunveruleikinn,“ sagði hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .