Alþjóðlegur hlutabréfamarkaður hefur verið tiltölulega rauður frá fyrsta viðskiptadegi ársins, en þrjú heitustu tæknisprotafyrirtækin hafa fengið sérstaklega slæma útreið.

Meðal þeirra má nefna Fitbit - sem framleiðir snjallúr í samkeppni við Apple, GoPro - sem framleiðir myndavélar fyrir ofurhuga og íþróttafólk, og Etsy - vefsíða þar sem handverksfólk getur náð til viðskiptavina sinna á auðveldan hátt.

Frá því um miðjan júlí á síðasta ári hefur gengi hlutabréfa þessarra þriggja félaga hrunið um 53%-71% - þar sem GoPro hefur lækkað mest og Etsy minnst.

Fitbit frumsýndi nýtt snjallúr á CES nú á dögunum - Fitbit Blaze. Fjárfestar virðast ekki spenntir fyrir því, ef marka má verðhrun gengis hlutabréfa fyrirtækisins.

Hvað GoPro varðar hefur félagið, líkt og Fitbit, nýlega gefið út nýja græju - GoPro Session - en hún hefur ekki fangað athygli neytenda sem skyldi. Ekki virðist heldur duga að talsmenn félagsins hafi skilið eftir vísbendingar um drónmyndavélar nýverið.