Eftirspurn eftir flugsætum hjá Icelandair milli Íslands og Bretlands hefur minnkað undanfarið. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var málið til umræðu á framkvæmdastjórnarfundi hjá Icelandair í síðustu viku. Þar lýstu menn því að heilt yfir væri staðan í flugi sérstaklega slæm á Gatwick, Heathrow og Manchester ásamt Boston og St. Pétursborg.

Síðastnefndi flugvöllurinn er í Rússlandi og má leiða að því líkum að spennan á milli Rússa og Úkraínumanna hafi áhrif á eftirspurn eftir ferðum þangað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verða hugsanlega felldar niður einhverjar flugferðir til Pétursborgar í september.

Fyrrnefndu þrír vellirnir eru hins vegar allir í Bretlandi og vekur það meiri athygli að staðan á þeirri flugleið sé farin að valda stjórnendum Icelandair áhyggjum. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia fljúga þrjú flugfélög milli Íslands og Bretlands. Það eru WOW air, Icelandair og easyJet.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flug á milli Íslands og Bretlands sé til skoðunar. „Það er gríðarlegt aukið framboð hjá okkur og hjá öðrum til og frá Bretlandi. Ferðamönnum frá Bretlandi er að fjölga mjög mikið eins og hefur komið fram í tölum frá hinu opinbera. En þessi mikli vöxtur hefur verið hraður og það þarf að fylgjast mjög vel með þeim markaði og gæta þess að framboðið fari ekki fram úr eftirspurninni,“ segir Guðjón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .