Nýjar tölur um atvinnustig í Bandaríkjunum, sem benda til þess að hægt hafi á vexti atvinnustigs þar í landi, eru taldar hafa átt þátt í að orsaka töluverða hækkun við opnun markaða vestanhafs. Reuters greinir frá þessu. Dow Jones hefur hækkað um 0,32% það sem af er degi og Nasdaq Composite vísitalan um 0,85%.

Um nokkra hríð hafa markaðir í Bandaríkjunum haft tilhneygingu til að bregðast vel við að því er virðist slæmum tíðindum úr efnahagslífinu. Ástæða þessa að því er virðist undarlega orsakasamhengis er sögð vera sú að hægari efnahagsbati minnkar líkurnar á því að bandaríski seðlabankinn fari í vaxtahækkanir á næstunni. Hækkun stýrivaxta myndi að öðru óbreyttu leiða til lækkunar á eignaverði, þar á meðal verði hlutabréfa.

Nýjar tölur um viðskiptajöfnuð Bandaríkjanna birtust einnig fyrir opnun markaða í morgun. Hallinn á viðskiptum Bandaríkjanna við önnur lönd nam 7,1% í júnímánuði, sem er meira en spáð var. Aukning viðskiptahallans orsakaðist fyrst og fremst af aukningu í innflutningi.