Útlán í vanskilum og önnur „slæm“ útlán tíu stærstu banka Danmerkur nema alls um 142 milljörðum danskra króna, andvirði um 3.000 milljarða íslenskra króna, og hefur þessi tala þrefaldast á síðustu fimm árum.

Í frétt Börsen er haft eftir danska fjármálaeftirlitinu að fjárhæðin sé mjög há í sögulegu samhengi.

Bankarnir tíu hafa samtals fært um 80 milljarða danskra króna varúðarfærslur vegna slæmra lána, en þá standa eftir 62 milljarðar sem ekki er búið að gera ráðstafanir vegna. Í fréttinni segir að þessu fylgi óöryggi. Danske Bank og Nordea vara hins vegar við því að lesa of mikið í tölurnar. Á krepputímum gangi einstaklingar og fyrirtæki á laust fé sem geri það að verkum að veðstaða þeirra versnar. Það þurfi ekki að þýða að fólk og fyrirtæki muni ekki halda áfram að greiða af lánunum.