Neytendastofa hefur sektað Orkusöluna, dótturfélag Rarik, um 400 þúsund krónur og bannað félaginu að viðhafa tiltekna viðskiptahætti. Málið varðar flutning tiltekinna viðskiptavina Orku náttúrunnar (ON), dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, yfir til Orkusölunnar án fyrirliggjandi samþykkis viðskiptavina. ON sagðist hafa alls móttekið tilkynningar um óumbeðin söluaðilaskipti frá fjörutíu viðskiptavinum sínum.

ON lýsti því að við ábendingar hafi borist við framkvæmd þjónustukönnunar hjá viðskiptavinum sem höfðu sagt sig úr viðskiptum að aðdragandi söluaðilaskiptanna væri einkum tvenns konar. Annars vegar að viðskiptavinur ON hafi staldrað við hjá sölubás og hins vegar með símhringingum í viðskiptavini ON þar sem Orkusalan hafi boðið þeim í raforkuviðskipti.

Við þessar aðstæður hafi Orkusalan kynnt viðkomandi viðskiptavinum ON möguleika á að færa raforkuviðskipti yfir til Orkusölunnar. Þeim hafi verið tjáð að félagið myndi senda þeim tilboð í kjölfarið. Sammerkt væri með lýsingum viðskiptavina að tilboðið hafi aldrei borist. Þrátt fyrir það hafi Orkusalan tilkynnt söluaðilaskipti til dreifiveitu, sem væri milliliður í slíkum söluaðilaskiptum. Því hafi viðskiptavinir ON verið færðir yfir til Orkusölunnar án þess að vilji þeirra til söluaðilaskipta eða samþykki hafi legið fyrir, að mati ON..

„Þá væri ljóst af tilkynningum sem borist hefðu frá viðskiptavinum ON að ekki hafi í neinu tilviki legið fyrir samþykki viðskiptavinar ON fyrir söluaðilaskiptunum. Þá hafi að sama skapi ekki legið fyrir neitt eiginlegt tilboð. Af framangreindu mætti ráða að enginn samningur um raforkuviðskipti hafi í raun komist á milli viðskiptavina ON og Orkusölunnar þrátt fyrir að fjöldi viðskiptavina ON hefði verið skráðir í viðskipti hjá Orkusölunni,“ er haft úr bréfi ON til Neytendastofu í ákvörðun stofnunarinnar.

Í svörum Orkusölunnar kom fram að um tímabundnar markaðsaðgerðir hafi verið að ræða þar sem nýjum notendum var boðið tilboð. Þeir notendur sem þáðu tilboðið og vildu færa sig yfir í viðskipti til Orkusölunnar voru skráðir niður og í framhaldinu leitaði Orkusalan upplýsinga um umrædda notendur og tilkynnti um söluaðilaskiptin til dreifiveitu.

Samhliða tilkynningunni um söluaðilaskipti var notendum sendur staðfestingarpóstur þar sem þeir voru boðnir velkomnir í viðskipti við Orkusöluna. Í staðfestingarpóstinum hafi komið fram upplýsingar um félagið ásamt tilvísun til viðskiptaskilmála þar sem væri að finna nánari upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna, afhendingu, uppsögn samnings o.fl., þar á meðal að greiðsla fyrsta reiknings væri talin formleg staðfesting á viðskiptasambandinu.

„Við úrlausn málsins sýndi Orkusalan ekki fram á að upplýsingagjöf vegna fjarsölunnar hafi verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Þá gat Orkusalan ekki sýnt fram á að notendurnir hafi viljað flytja viðskipti sín,“ segir í tilkynningu Neytendastofu.