Á morgun, fimmtudaginn 11. nóvember, er Dagur einhleypra, eða Singles Day, en um er að ræða einn stærsta viðskiptadag í netverslun í heiminum. Dagurinn markar upphaf jólaverslunarinnar hjá mörgum og er sá fyrsti í röðinni af þremur stórum netverslunardögum sem eru á dagskrá um þetta leyti ár hvert, en hinir dagarnir eru Svartur föstudagur (Black Friday) sem fer fram á föstudegi, degi eftir þakkargjörðahátíðina, og Rafrænn mánudagur (Cyber Monday) strax næsta mánudag á eftir.

Dagur einhleypra á rætur sínar að rekja til Kína og hefur orðið einn stærsti viðskiptadagur í netverslun á heimsvísu eftir að kínverski netrisinn Alibaba tók hann upp á sína arma fyrir rúmum áratug. Til að setja stærð dagsins í samhengi nam sala Alibaba á Degi einhleypra 75 milljörðum dala í fyrra, eða sem nemur tæplega 10 þúsund milljörðum króna.

Styttra er síðan Dagur einhleypra ruddi sér til rúms hér á landi, en markaðskonan, frumkvöðullinn og varaþingmaður Framsóknarflokksins, Brynja Dan Gunnarsdóttir, kom landsmönnum á bragðið árið 2014. „Mér fannst þessi dagur vera mjög spennandi og eiga fullt erindi sem byrjunarpunktur jólaverslunarinnar. Í dag er Singles Day orðinn risastór verslunardagur sem búinn er að skipa sér svipaðan sess í verslun og janúarútsölurnar."

Brynja hefur um nokkurra ára skeið tekið saman þau tilboð sem standa landsmönnum til boða á Degi einhleypra og gerði það til að byrja með inni á bloggsíðu. Fyrir um þremur árum setti Brynja svo í loftið heimasíðuna 1111.is, sem er skírskotun í 11. nóvember, daginn sem Dagur einhleypra fer fram. Á síðunni má nálgast alla afslætti sem verslanir munu bjóða upp á á Degi einhleypra, en heimasíðan heldur einnig utan um þá afslætti sem verða í boði hina stóru netverslunardagana.

„Það má líkja 1111.is við regnhlíf fyrir verslanir þar sem hægt er að nálgast allt á einum stað, þ.e. hvaða verslanir eru með afslætti og hvaða afslætti þær bjóða. Þannig er fólki auðveldað lífið og getur það því sest fyrir framan tölvuna og gengið skipulega frá jólainnkaupunum."

200 þúsund heimsóknir í fyrra

Brynja segir umsvif Dags einhleypra hafa vaxið ár frá ári en algjör sprengja hafi svo átt sér stað í fyrra er heimsóknir á 1111. is voru ríflega 200 þúsund talsins, bara þennan eina dag. „Fyrsta árið tóku fimmtán fyrirtæki þátt, næsta ár voru þau um tvöfalt fleiri og í dag eru um þrjú hundruð fyrirtæki skráð inni á 1111.is. Þetta hefur því vaxið mjög hratt ár frá ári og virðist svo sannarlega verið komið til að vera," segir Brynja.

„Í kringum Singles Day í fyrra voru mjög strangar samkomutakmarkanir og þá jókst sóknin í netverslun verulega. Ég geri því ekki ráð fyrir að heimsóknirnar á heimasíðuna verði fleiri í ár heldur en í fyrra og verð sátt svo lengi sem heimsóknirnar núna verði fleiri en árið 2019. 2020 er ár sem er ekki alveg marktækt í samanburði við önnur," bætir hún við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um áhrif opnunar landamæra Bandaríkjanna fyrir bólusettum ferðamönnum á tengimiðstöðina Ísland.
  • Ítarleg úttekt á gengi stærstu fjárfestanna á íslenskum hlutabréfamarkaði.
  • Rætt við annan mætingarmanninn við Héraðsdóm Reykjavíkur.
  • Íslenskt fjarskiptafélag mun líklega fylgja með hundruð milljarða yfirtöku.
  • Linda Fanney Valgeirsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Alor, er mikil fjallageit auk þess að vera i kór.
  • Breytt skipulag bensínstöðvar Atlantsolíu við Háaleitisbraut gæti aukið verðmæti lóðarinnar verulega.
  • Umfjöllun um nýjan vettvang Kóða sem mun auðvelda almenningi að fjárfesta í sprotafyrirtækjum.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um yfirstandandi ríkisstjórnarviðræður.
  • Óðinn skrifar um refi og Umhverfisstofnun.