Olíufélagið ehf. og Atlantsolía ehf. hafa bæst í hóp tveggja annarra olíufélaga sem óskað hafa eftir lóðum undir bensínstöðvar á Ísafirði. Í fréttum Bæjarins besta á Ísafirði í síðustu viku óskuðu Orkan og Olís eftir lóðum á Ísafirði. Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar sem haldinn var í gær lá fyrir umsókn Olíufélagsins þar sem óskað er að nýju eftir lóð fyrir bensínstöð á Skeiði í Skutulsfirði. Félaginu var sem kunnugt er úthlutað umræddri lóð í janúar 2003 en sú úthlutun er úr gildi fallin þar sem framkvæmdir hófust ekki innan árs frá úthlutun segir í frétt á fréttavef BB.

Þar er einnig bent á að á bæjarráðsfundinum var lögð fram umsókn frá Atlantsolíu þar sem óskað er formlega eftir lóð á Skeiði í Skutulsfirði. Í bréfi Atlantsolíu er þess getið að fyrirhugað sé að reisa sjálfsafgreiðslustöð fyrir 95 oktana bensín og díselolíu á lóðinni. Þá er það nefnt í bréfi fyrirtækisins að á Vestfjörðum séu seldar 10 milljónir lítra af bensíni og díselolíu og því geti sparnaður íbúa þar orðið um 100 milljónir króna með innkomu Atlantsolíu á markaðinn. Sá sparnaður sé um 50 þúsund krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í fjórðungnum. Þá er þess getið í bréfi Atlantsolíu að hin nýja bensínstöð geti opnað 90 dögum eftir úthlutun lóðar.

Eins og fram hefur komið í fréttum BB að undanförnu hefur bensínverð á Ísafirði verið það hæsta á landinu þrátt fyrir hagræðingu sem olíufélögin þrjú hafa haft af samrekstri bensínstöðvarinnar á Ísafirði. Þá hefur einnig komið skýrt fram að bensínverð hefur verið lægst á höfuðborgarsvæðinu í grennd við bensínstöðvar þær sem Atlantsolía rekur. Ef marka má skyndilegan áhuga olíufélaganna allra á lóðum undir bensínstöðvar á Ísafirði þá geta neytendur á Ísafirði loks gert sér vonir um lægra bensínverð segir í frétt BB.