Sex einstaklingar hafa gefið kost á sér til setu í stjórn Vodafone á aðalfundi félagsins sem haldinn verður á fimmtudag, 11. apríl nk. Kostið verður um fimm sæti þannig að ljóst er að tekist verður á í baráttunni um stjórnarsæti.

Þrír af núverandi stjórnarmönnum gefa kost á sér til endurkjörs. Það eru þau Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Eimskip, Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskipta hjá Samskipum og Vilmundur Jósefsson, framkvæmdastjóri Svartá og fv. formaður Samtaka atvinnulífsins. Þá gefur Hildur Dungal, fv. forstjóri Útlendingastofnunar, jafnframt kost á sér en hún sat í varastjórn félagsins.

Loks gefa þeir Hjörleifur Pálsson, fv. fjármálastjóri Össurar, og Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, kost á sér í stjórn. Heiðar Már má sem kunnugt er um 5% hlut í Vodafone í gegnum fjárfestingafélag sitt Ursus.

Þau Agla Elísabet Hendriksdóttir og Erlendur Steinn Guðnason gefa síðan kost á sér í varastjórn félagsins.  Framboðsfrestur er nú útrunnin og sjálfkjörið er í varastjórn.

Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að kosningafyrirkomulagið verður í formi meirihlutakosningar á milli einstaklinga sem í framboði eru. Eitt atkvæði fylgir hverjum hlut.

Þór Hauksson, fráfarandi stjórnarformaður, gefur eðli málsins samkvæmt ekki kost á sér áfram en hann sat í stjórn fyrir hönd Framtakssjóðs Íslands sem áður átti stærstan hluta í félaginu. Framtakssjóðurinn seldi sem kunnugt er eign sína í félaginu fyrir skömmu.