Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur kynnt verulegar tilslakanir á reglum um sóttkví, en ríkisstjórnarfundi lauk nú í hádeginu. Einstaklingum sem eru útsettir fyrir Covid smiti utan heimilis eða dvalarstaðar síns verður ekki lengur skylt að fara í sóttkví og munu þess í stað fara í smitgát, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins .  Reglurnar munu taka gildi frá og með miðnætti.

Sóttkví verður því einungis fyrir þá sem útsettir eru á heimili og verða skilyrði sóttkvíar óbreytt, þ.e. aðskilnaður frá öðrum í fimm daga og PCR-próf til að losna og munu þríbólusettir áfram sleppa við sóttkví og fara í smitgát í staðinn.

Börn á leik- og grunnskólaaldri verða undanþegin hefðbundnum reglum um smitgát, en ef smit verða á heimili þeirra þurfa þau að fara í sóttkví. Í minnisblaði sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra segir að reglur um sóttkví og einangrun hafi valdið miklum fjarvistum í skólum og á vinnumarkaði. Mörg börn hafi endurtekið þurft að vera í sóttkví og hafa sérfræðingar bent á neikvæðar afleiðingar þess á velferð barna. 24. janúar síðastliðinn hafi um 11 þúsund börn verið í einangrun eða sóttkví.