Markaðspunktar Arion banka sem birtust í dag segja á að lækkun bindiskyldu hafi komið á óvart og að óvissa í vinnumálum og slaki í ríkisfjármálum valdi áhyggjum.

Kemur á óvart

Seðlabanki tilkynnti um lækkun bindiskyldu í morgun samhliða tilkynningu um að bankinn ætli að halda meginvöxtum sínum óbreyttum. Bindiskyldan var hækkuð í september sl. til að varðveita lausafjárstöðu fjármálastofnanna í tengslum við uppgjör slitabúa og útboð aflandskróna. Arion banki furðar sig á því að bindiskyldan sé lækkuð þegar ekkert bóli á fréttum um hvenær útboð aflandskróna fari fram.

„Staðreyndin er þó sú að ekkert hefur bólað á fréttum um hvenær útboð aflandskróna mun eiga sér stað og kemur því lækkun bindiskyldunnar á óvart. [...]. Lækkun bindiskyldunnar nú virðist endurspegla það mat Seðlabankans að þetta há bindiskylda verði brátt íþyngjandi og að bankarnir hafi brugðist við henni og yfirvofandi útstreymi króna í sinni lausafjárstýringu, þ.e. að árangri hafi verið náð. Raunin virðist vera sú að nauðasamningar slitabúanna gangi greiðar fyrir sig en menn gerðu ráð fyrir að að áhrif af uppgjöri slitabúanna á lausafjárstöðu bankakerfisins sé að koma fyrr fram og í meiri mæli en áætlað var. “

Aðhald í ríkisfjármálum er lykilatriði

Það sé lykilatriði að aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum á sama tíma og Seðlabankinn reyni að auka aðhald peningastefnunnar.

Miðað við nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um fjárlagafrumvarpið 2016 lítur út fyrir að heildarjöfnuður verði um 5 ma.kr. lakari en lagt var upp með eða 10,7 ma.kr. í stað 15,3 ma.kr. Það sama á við um frumjöfnuðinn en hann er einnig rúmlega 5 ma.kr. lakari en sett var fram í fjárlagafrumparpinu.

Það er því útlit fyrir að endanleg fjárlög muni fela í sér enn meiri slaka en fram kom í fjárlagafrumvarpinu 2016. Ef svo fer að ólgan á vinnumarkaði heldur áfram þegar líður fram á næsta ár er ljóst að það kann að skapa aukinn verðbólguþrýsting. Allt eru þetta þó vangaveltur því enn sem komið er virðast verðbólguhorfur til skemmri tíma fara sífellt batnandi. Það breytir því þó ekki að ríkisfjármálin þurfa til lengri tíma litið að styðja við peningastefnunna ef halda á aftur af verðbólguþrýstingi.