Gengi hlutabréfa í SAS-samstæðunni, stærstu flugfélagasamsteypu Norðurlanda, féll um 13% í kjölfar birtingar ársuppgjörs í gær. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að fjórði ársfjórðungur hafi reynst vera mjög slakur þar sem sætaframboð var mun meira en eftirspurn og dró verulega úr sætanýtingu.

Félagið skipti út 27 flugvélum af gerðinni Dash 8 Q-400 fyrir óhentugri vélar eftir að þrjú óhöpp komu upp á skömmum tíma í haust og varaði við tekjumissi og kostnaðaraukningu á fjórðungum sem varð raunin. Ekki bætti úr skák að verkfallshótanir starfsmanna trufluðu rekstur félagsins. Fjórði ársfjórðungur var gerður upp með 6,1 milljarðs króna tapi (-596 mSEK) samanborið við 47,2 milljarða hagnað (4.608 mSEK) á sama tímabili í fyrra. Til samanburðar höfðu greinendur reiknað með meðaltalshagnaði upp á rúman einn milljarð króna og er uppgjörið því fjarri spám. Tekjur námu 135,5 milljörðum króna og hækkuðu rétt lítillega frá fyrra ári. SAS hagnaðist um 6,5 milljarða á öllu árinu 2007 sem var 86,5% samdráttur.

Sultarólin hert Stjórnendur SAS telja að árið 2008 gæti reynst erfitt þegar horft er til samdráttar í einkaneyslu á síðustu mánuðum og vikum. Félagið ætlar að selja frá sér Spanair og eignarhlut í BMI í Bretlandi í þeirri viðleitni að skera niður kostnað og einbeita sér að flugrekstri í Norður-Evrópu. Erfiðleikar SAS hafa endurspeglast í mikilli gengislækkun á síðustu mánuðum, en á hálfu ári hafa hlutabréf félagsins fallið um 67% samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.