Hagnaður Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi nam 3.038 m.kr. sem er verulega undir væntingum greiningardeildar Landsbankans um 4.385 m.kr. hagnað. Frávik frá spá þeirra liggur að langmestu leyti í 1.500 m.kr. lægri gengishagnaði en einnig voru hreinar þjónustutekjur töluvert lægri en þeir áætluðum. Á móti kemur að virðisrýrnun útlána og krafna var rúmum 300 m.kr. minni.

Síðasta greining þeirra á Íslandsbanka er síðan 19. janúar en verðmatsgengi þeirrar greiningar var 10,2. Frá þeim tíma hefur orðið töluverð breyting á rekstri bankans þar sem bankinn hefur selt 66,6% hlut í Sjóvá en söluverð hlutarins var mun hærra en Landsbankamenn voru að meta Sjóvá á. "Verðmat okkar á Íslandsbanka verður því tekið til endurskoðunar og þá til hækkunar. Við mælum þó áfram með að fjárfestar undirvogi bréf sín í Íslandsbanka í vel dreifðu eignasafni," segir í áliti greiningardeildar.