Gríðarleg hækkun hefur orðið á ávöxtunarkröfu allra ríkisskuldabréfa í dag og umtalsverð hækkun á kröfu á íbúðabréfum. Hækkunin er mest á stystu flokkunum, og nemur hún til dæmis 1,63 prósentustigi á flokknum RIKB 13 0517 og 1,11 prósentustigi á flokknum RIKB 14 0314. Stysti íbúðabréfaflokkurinn, HFF 14 0915 hefur hækkað um 0,90 prósentustig. Einn viðmælandi vb.is lýsir ástandinu við „slátrun“. Velta á skuldabréfamarkaði hefur nú þegar náð rúmum 21,5 milljörðum króna.

Hækkanirnar eru raktar til nýs frumvarps fjármálaráðherra um breytingar á lögum um gjaldeyrismál, en þar er lagt til að eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert og að almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits verði rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna.

Frumvarpið sjálft er nokkuð flókið, því breytingar eru gerðar á mörgum greinum gjaldeyrislaga og kann því að vera að viðbrögð markaðarins séu meiri en inntak frumvarpsins gefur tilefni til. Alltént virðist vera nokkur óvissa meðal markaðsaðila hvað frumvarpið feli í sér. Einhverjir hafa sagt að þeir telji að frumvarpið feli í sér takmörkun á möguleikum erlendra aðila til að eiga íslensk skuldabréf. Viðbrögð á markaði hafa allavega ekki látið á sér standa.

Frumvarpið var upphaflega samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu (nú atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti) í samvinnu við seðlabankann. Það var lagt fram vorið 2012, en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið var þá sem nú lagt fram sem liður í áætlun um losun gjaldeyrishafta sem Seðlabanki Íslands birti 25. mars 2011. Frumvarpið, sem hefur tekið nokkrum breytingum frá þeim tíma, var unnið í samvinnu fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Seðlabanka Íslands, að teknu tilliti til breytinga sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði fram.