„Markaðurinn er alltaf að giska á eitthvað. En það er greinilegt þegar horft er á þróun ávöxtunarkröfu styttri óverðtryggðra bréfa að hún var að lækka og komin úr takti. Þetta var leiðrétting,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um titring og mikla hækkun á ávöxtun allra ríkisskuldabréfa og umtalsverða hækkun á kröfu íbúðabréfa. Mest var hækkunin í stystu flokkum. Viðskiptablaðið hafði orðið „slátrun“ eftir einum viðmælenda á markaðnum. Már sagði um taugaveiklun hafa verið að ræða.

Þróunin var rakin til nýs frumvarps fjármálaráðherra um breytingar á lögum um gjaldeyrismál en þar var m.a. lagt til að eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum vegna greiðslna vaxta, verðbóta, arðs og samningsbundinna afborgana verði hert og að almenn heimild Seðlabankans til upplýsingaöflunar í þágu eftirlits verði rýmkuð til samræmis við heimild bankans til að afla upplýsinga í þágu rannsókna. Sumir töldu viðbrögð markaðarins meiri en inntak frumvarpsins gaf í raun til kynna. Alltént virtist vera nokkur óvissa meðal markaðsaðila hvað myndi felast í frumvarpinu, m.a. talið að í því gæti falið takmörkun á möguleikum erlendra aðila til að eiga íslensk skuldabréf.

Menn mega giska á þróunina

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur Greiningar Íslandsbanka, spurði Má og Arnór m.a. að því hvort birtast munu reglur af hálfu seðlabankans sem snúi beint að því hverjir fjárfestingarmöguleikar krónueigenda verði áður en lögin taka gildi.

Þeir Már og Arnór furðuðu sig báðir á þróuninni á skuldabréfamarkaðnum í síðustu viku.

„Það er ekki þannig af okkar hálfu að við gerum byltingu á því hvað erlendir aðilar með krónur geti fjárfest í. En auðvitað geta slíkar breytingar komið síðar. Ég held að það sé ekki eins mikið óvissa um þetta til skemmri tíma. En menn mega alltaf giska á eitthvað. Við ætlum ekki að breyta neinu.“