Sláturfélag Austurlands á Egilsstöðum var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Austurlands 12. september síðastliðinn og hefur skiptastjóri verið skipaður yfir þrotabúið. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptafundur er boðaður 12. desember næstkomandi.

Sláturfélagið var stofnað árið 2001 en það var samvinnufélag bænda á Austurlandi. Það var jafnframt eigandi kjötvinnslunnar Snæfells sem rekur samnefnda kjöt- og fiskbúð á Egilsstöðum.

Fisk- og kjötbúðin var opnuð í maí síðastliðnum. Þegar það var gert hafði ekki verið rekin fisk- eða kjötbúð á Egilsstöðum frá því verslunin Samkaup hætti því fyrir þremur árum.