Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á árinu 2012 var 463 milljónir króna, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Árið áður var hagnaður félagsins 1.179 milljónir krónar en þá voru gengistryggð lán félagsins leiðrétt. Eigið fé er 3.140 milljónir og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 50%.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 9.394 milljónir króna árið 2012, en voru 8.451 milljónir árið áður og hækka því um 11%. Aðrar tekjur voru 53 milljónir en voru 58 milljónir króna árið áður.

Stjórn Sláturfélagsins samþykkti á stjórnarfundi í dag að hafa sem viðmiðun að greiða samtals einn þriðja af afkomu móðurfélagsins af reglulegri starfsemi eftir skatta og fyrir reiknaða hlutdeild í afkomu dótturfélags og hlutdeildarfélaga til eigenda og félagsmanna.

Þessi þriðjungur skiptist í arð, þar með talinn arð vegna verðbóta til B deildar, vexti til A deildar og uppbót á afurðaverð liðins árs. Arður til B deildar og vextir á A deild greiðast samkvæmt samþykktum félagsins en það sem á vantar að þriðjungi af afkomu sé náð verður greitt sem uppbót á afurðaverð. Segir í tilkynningunni að með þessum hætti sé ætlunin að tengja enn betur en verið hefur ávinning bænda sem skipta við félagið við afkomu félagsins er vel gengur.