Sláturfélags Suðurlands var rekið með 259 milljón króna tapi á síðasta ári miðað við 78 milljóna króna hagnað árið 2019. Heimsfaraldurinn er sagður hafa haft í för með sér „víðtæk neikvæð áhrif á afkomu félagsins á árinu með samdrætti í tekjum og auknum kostnaði.“ Bæði hafi faraldurinn leitt af sér tekjusamdrátt og auknum kostnað m.a. vegna smitvarna. Gert er ráð fyrir að neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins á reksturinn muni halda áfram á árinu 2021.

Framleiðsla kjöts á landsvísu dróst saman um 2% á árinu 2020 og sala um 5%. „Ekki er gert ráð fyrir að kjötmarkaðurinn komist í betra jafnvægi fyrr en neikvæðum áhrifum af COVID-19 líkur með auknum fjölda ferðamanna til landsins. Áfram er gert ráð fyrir neikvæðum áhrifum af innflutningi kjötvara á afkomu afurðahluta samstæðunnar,“ segir í uppgjöri félagsins.

Rekstrartekjur SS lækkuðu úr ríflega 12 milljörðum í 11,35 milljarða króna eða um 6%. Rekstrartap nam 123 milljónum en 253 milljóna rekstrarhagnaður var á fyrra ári.

Í uppgjörinu segir þó að fjárhagsstaða SS sé traust með 50% eiginfjárhlutfall en eignir félagsins í árslok námu 10 milljörðum, eigið fé 5 milljörðum og skuldir 5 milljörðum. Langtímatímaskuldir í lok árs voru 2 milljarðar í árslok og félagið hefur auk þess aðgang að 625 milljóna króna lánalínu.