Sláturhúsi Íslandsfugls á Dalvík verður lokað frá og með næstu mánaðamótum og allur eldisfugl fluttur í sláturhús Matfugls í Mosfellsbæ. Að sögn Gunnars Þórs Gíslasonar, hjá Matfugli, verður eldishús Íslandsfugls, sem er 3500 fermetrar að stærð, notað áfram fyrir norðan en fyrirtækið leitar nú að nýjum notum fyrir sláturhúsið sem var vígt árið 2001 og þykir mjög fullkomið. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Eftir að Sundagarðar keyptu allt hlutafé í Marvali, rekstrarfélagi Íslandsfugls, nú í lok maí var ljóst að rekstrinum yrði breytt verulega og var öllum starfsmönnum sagt upp um síðustu mánaðamót. Um 50 manns störfuðu hjá Íslandsfugli þegar mest var og þar af komu um 40 manns að slátrun og vinnslu í um 30 stöðugildum. Þeim hafði fækkað nokkuð þegar Sundagarðar keyptu reksturinn en ljóst er að ekki munu margir starfa hjá fyrirtækinu fyrir norðan í framtíðinni.

Að sögn Gunnars Þórs eru þeir að leita allra leiða til að hagræða í þessum rekstri en ljóst hefði verið að reksturinn á Dalvík gekk ekki einn og sér. Gunnar Þór sagðist aðspurður halda að til frekari hagræðingar yrði að koma í rekstri þeirra en ekki er langt síðan Matfugl tók yfir rekstur kjúklingabús Móa og sláturhús þeirra. Í maí keypti síðan Matfugl bústofn og birgðir Marvals.