Sláturtíðin hjá Norðlenska hefur gengið vel, segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, í samtali við Viðskiptablaðið. Rúm vika er liðin af sláturtíðinni og er nú þegar búið að slátra yfir 10 þúsund lömbum.

„Það er smá truflun þetta veður, en þetta hefur gengið ótrúlega vel.  Við höfum verið að ná fé af nærsvæðum þegar féð næst ekki af fjalli,“ segir Sigmundur. Hann gerir þó ekki lítið úr þeim vanda sem bændur standa frammi fyrir vegna óveðursins. Óveðrið núna sé ekki síðra en það var í fyrra.

„Við héldum að við fengum ekki sama skot og í fyrra. Þetta er ekkert ósvipað skot og það var í fyrra. Það truflar bændur verulega,“  segir Sigmundur.

Sigmundur segir að féð sem búið er að slátra líti vel út. „Síðast þegar ég sá tölur var nánast sami fallþungi og í fyrra,“ segir hann. Hann segir að í fyrra hafi 110 þúsund lömbum verið slátrað og býst við svipuðu núna.