Neytendastofu hefur slegið á puttana á samfélagsmiðlastjörnunum Sólrúnu Diego og Tinnu Alavisdóttur fyrir að stunda duldar auglýsingar á Instagram. Þá segir Neytendastofa að haldi þær athæfinu áfram gætu þær verið beittar sektum.

Í ákvörðun Neytendastofu er snýr að Sólrúnu Diego snerist um duldar auglýsingar Air í Kringlunni og í tilfelli Tinnu umfjöllun um verslunina Sætar syndir og vörur verslunarinnar. Í tilfelli Tinnu er fundið að því að hvergi hafi komið fram að um auglýsingu væri að ræða.

„Benti stofnunin á að umræddar færslur hafi ekki verið merktar sem auglýsingar eða með öðrum skýrum hætti greint frá því að þær hafi verið gerðar í viðskiptalegum tilgangi, að því undanskildu að finna mátti örsmáa merkingu neðst í hægra horni myndarinnar, #samstarf, í hvítu letri á hvítum grunni,“ segir í ákvörðun Neytendastofu í tilfelli Sólrúnar og Air.

Í samskiptum við Neytendastofu spurði Sólrún hvernig stofnunin taki á ábendingum „sem einungis er komið til hennar til þess eins að skemma eða sverta mannorð áhrifavalda“ eins og það er orðað í ákvörðuninni. Í öðru lagi var spurt hvort Neytendastofa hafi gert tilraunir eða sýnt einhvern áhuga á því að fá áhrifavalda inn á borð með sér til að dýpka skilning sinn á viðfangsefninu og að vinna að stefnumarkandi áætlun og leiðbeiningum. Loks fái margir áhrifavaldar gríðarlegt magn gjafa og varnings sendan til sín óumbeðið og í mörgum tilfellum sé þetta mikil kvöð. Bæði myndist ákveðin pressa frá þeim sem senda varninginn sem og ónæðið af óumbeðnum póstsendingum og átroðningi. Í mörgum tilfellum hunsa áhrifavaldar þennan varning en í öðrum tilfellum sé það þannig að áhrifavöldum langi til að segja frá honum án þess að vera í beinu viðskiptasambandi við þann sem sendi varninginn. Í ljósi þessa óskaði Sólrún eftir afstöðu Neytendastofu til framangreinds sem og hvort stofnunin hafi gefið út leiðbeiningar til fyrirtækja varðandi sendingar á varningi til áhrifavalda.

Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að áhrifavaldar væru einnig undir smásjá skattayfirvalda.  Bréf voru nýverið send áhrifavöldum sem og fyrirtækjum sem stunda við þá viðskipti.