Kjörbúðakeðjan Intermarché í Frakklandi kynnti nýlega 70% afslátt af Nutella súkkulaðihnetusmjörinu og lækkaði verðið úr 4,5 evrum í 1,4 evrur.

Keðjan sá þó ekki fyrir viðbrögð viðskiptavina en kalla þurfti til lögreglu til þess að brjóta upp slagsmál þeirra á milli svo mikil var ásóknin í vöruna á þessum kostakjörum.

„Við vorum að reyna að aðskilja viðskiptavini en þeir ýttu okkur til hliðar,“ er haft eftir starfsmanni í einni búðinni en sjónarvottur sagði hegðun viðskiptavina hafa verið dýrslega.

Svipuð atvik hafa komið upp í öðrum búðum í Frakklandi sem sumstaðar hefur verið lýst sem óeirðum.

Í einni búð skammt frá Toulouse höfðu starfsmenn komið upp skömmtunarkerfi þar sem hver viðskiptavinur fékk aðeins að kaupa eina krukku hver.