Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, segir mikla samkeppni vera á heildsölumarkaði með dagvöru. Samkeppnin varði allt í senn verð, þjónustu og úrval. Spurður um áhrif samþjöppunar á dagvörumarkaði á samkeppnina segir hann að styrkur kaupenda sé í sjálfu sér ekki meiri en hann hefur verið undanfarin 10 ár.

"En það er klárlega styrkur hjá kaupendum og þar kemur líka samkeppnin í ljós," segir Magnús og bætir við að með innkaupakerfum geti smásalar keypt sömu eða svipaðar vörur og heildsalar bjóði upp á. "Það er líka þá samkeppni sem kemur frá okkar viðskiptavinum, það er einn þáttur í samkeppninni."

Samþjöppunin hefur ekki breyst

Ari Fenger, forstjóri Nathan & Olsen, segir að samkeppni sé til staðar í öllum vöruflokkum sem fyrirtækið býður upp á. "Það er náttúrulega slegist um vörumerkin uppi í hillum úti á markaðnum. Það er erfitt að segja að einhver einn heildsali sé minn helsti samkeppnisaðili, við horfum þetta allt út frá vörumerkjunum sem við erum með hverju sinni,“ segir hann.

Hann tekur í sama streng og Magnús Óli og segir samþjöppun á dagvörumarkaði ekki hafa breyst undanfarin ár. "Það eru náttúrulega þrír stórir aðilar á markaðnum og það er náttúrulega búið að vera þannig í tugi ára,“ segir hann.

Magnús R. Magnússon, framkvæmdastjóri Garra, segir að samkeppnin á heildsölumarkaðnum sé nokkuð þétt og hörð. Garri þjónustar stórnotendur og segir Magnús að engin ein vörutegund sé að vaxa hraðar en önnur. „Sá vöxtur sem er að eiga sér stað í greininni einkennist af bættum efnahag Íslendinga ásamt auknum ferðamannafjölda og þeirri þjónustu sem sá hópur krefst,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .