Nýjasta útgáfa stýrikerfisins Android frá Google er nefnd Android 5.0, en í daglegu tali gengur hún undir nafninu Lollipop, sleikjó, en Google heldur fast í þá hefð að nefna útgáfur Android eftir nammi. Áður en yfir lýkur eigum við eftir að sjá Lollipop á snjallsímum, spjaldtölvum, úrum, sjónvörpum, ísskápum og nánast hvers kyns apparötum, sem eru með skjá og tengjast netinu.

Eins og vant er komast þó ekki allir í nammið eins og skot. Það er þegar komið á Nexus 6 og Nexus 9, sem stutt er síðan komu á markað, en nú er það líka á leiðinni fyrir Nexus 4, Nexus 5, Nexus 7 (báðar kynslóðir) og Nexus 10. Sömuleiðis verður það í boði fyrir nýleg tæki með "Google Play Edition". Það er hins vegar mjög undir einstökum framleiðendum komið hvenær og fyrir hvaða tæki Lollipop verður í boði. Þumalfingursreglan er sú að öll tæki frá þessu ári fái Lollipop og slatti frá 2013. Mörg nú í desember, önnur snemma á nýárinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .