Krónan er að hleypa af stokkunum lausninni Skannað og skundað sem gerir viðskiptavinum sínum kleift að skanna vörur með síma á meðan gengið er um verslanir og komast þannig hjá afgreiðslu á kössum. Viðskiptavinum Krónunnar er boðið að prófa kerfið í versluninni í Lindum til klukkan 16 í dag.

„Þetta er mikil bylting fyrir íslenskan dagvörumarkað og ný upplifun fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Með smáforriti Krónunnar geta viðskiptavinir skannað strikamerki, bæði á vörunum sjálfum og hillumiða. Þá birtist verð og aðrar upplýsingar um vöruna og varan bætist samstundis við körfuna. Viðskiptavinir greiða svo í gegnum appið og geta gengið út úr versluninni án þess að þurfa að fara á kassa.

Stefnt er að því að innleiða lausnina í verslunum Krónunnar á næstu vikum. Markmiðið er að þessi valkostur standi viðskiptavinum til boða fyrir jólaösina.

Skannað og skundað lausnin er viðbót við Snjallverslun Krónunnar þar sem notendur geta sett vörur á minnislista í smáforritinu. Þegar þú mætir í verslunina verður vörum á listanum raðað eftir staðsetningu þannig að ferðalagið verður sem einfaldast og gangi sem hraðast fyrir sig.

„Þetta fyrirkomulag á að einfaldað lífið að okkar mati, sér í lagi fyrir einstaklinga sem eiga það til að gleyma einstaka hlutum þegar mætt út í búð,“ segir Ásta.

Hún telur líkur á því að verðvitund viðskiptavina aukist með notkun þessarar þjónustu þar sem hægt er sjá verð innkaupakörfunnar skref fyrir skref ásamt því að geta nálgast viðskiptasögu og innkaupalista í appi Krónunnar.

Stórar matvöruverslanir og stórfyrirtæki erlendis hafa ráðist í sambærilega vegferð en Ásta segist ekki hafa orðið vör við aðra snjallsímalausn sem nýtist með sama hætti. Hún kveðst stolt af því að hönnunin og utanumhald kerfisins fari fram innanhúss en Krónan hefur einnig átt í samstarfi við Reon í þróun á kerfinu.

Skannað og skundað - Lausn Krónunnar
Skannað og skundað - Lausn Krónunnar
© Aðsend mynd (AÐSEND)