*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 1. ágúst 2017 11:34

Sleppti 160 þúsund norskum seiðum

Níels Ársælsson útgerðarmaður viðurkennir að hafa sleppt 160 þúsund laxaseiðum af norskum stofni í hafið við erfðamengaðar ár.

Ritstjórn
vb.is

Fiskistofa segir grafalvarlegt brot við nokkrum ákvæðum laga um fiskeldi að sleppa seiðum viljandi í sjóinn. Brot af slíku tagi geta varðað fangelsisvist. Níels Ársælsson útgerðarmaður hefur viðurkennt að hafa sleppt 160 þúsund laxaseiðum af norskum stofni í sjó við Gileyri á Tálknafirði árið 2002 að því er Fréttablaðið segir frá.

Guðni Guðbergsson, forstöðumaður ferskvatnalífríkissviðs stofnunarinnar segir mögulegt að áhrifa af þessari sleppingu sé að gæta þegar Hafrannsóknarstofnun fann skýr merki um erfðablöndun í tveimur laxastofnum í Botnsá og Sunndalsá. Báðar árnar eru í nágrenninu, en einnig víðfemt laxeldi Fjarðarlax þar sem urðu slysasleppingar árið 2013 eins og Fiskifréttir fjölluðu um í frétt sinni sem vakti athygli á erfðablönduninni.

Losaði seiðin eftir gjaldþrot

Félag Níelsar, Eyrarfiskeldi hf. keypti 160 þúsund laxaseiði af norskum stofni og komu þau til eldishúss félagsins við Gileyri í nóvember árið 2001.

Áætlað var að laxaseiðið myndi gefa um 600 til 700 þúsund tonn sem koma átti til slátrunar í desember 2003, en þegar norskur samstarfsaðili fyrirtækisins varð gjaldþrota varð ekki úr þeim áætlunum. Þraut fjármagn Eyrarfiskeldis um mitt ár 2002, og ákvað Níels þá að hleypa seiðunum í sjó í gegnum botnlokur eftir að þau höfðu verið í svelti í þrjá mánuði.

„Ef þetta hafa verið fiskar sem voru seiði 2001 þá er býsna langt síðan og þetta er þá komið yfir á aðra kynslóð,“ segir Guðni. „Ef ég veit rétt hafa þessir fiskar verið af fyrstu kynslóð. En í ljósi þessa þarf að fara yfir þau gögn aftur.“