Ásmundur G. Vilhjálmsson, lögfræðingur og sérfræðingur í skattarétti, telur að íslensk löggjöf sé ekki í takt við það sem gengur og gerist á Norðurlöndum þegar skattaleg heimilisfesti er annars vegar. Of auðvelt er að hans mati að komast undan skattskyldu hér á landi. Hann hefur fjallað töluvert um heimilisfestarhugtakið sem er grundvallaratriði þegar skorið er úr um hverja Ísland geti skattlagt.

„Við höfum gegnum tíð­ina verið svolítið kærulaus á því,“ segir Ásmundur. „Svíar hafa til dæmis alltaf verið með tiltölulega breitt heimilisfestarhugtak. Í nágrannaríkjunum er þetta yfirleitt þannig að lagt er upp með búsetu eða umráðum yfir íbúð við ákvörðun heimilisfestar. Það reynir einkum á þetta þegar þú flytur af landi brott. Meðan þú átt íbúð í einhverju nágrannalandanna er ákveðin tilhneiging til að skattleggja þig eilíflega sem heimilisfastan mann með ótakmarkaða skattskyldu.“

Umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku um mögulega álagningu auðlegðarskatta og vangaveltur auðmanna um hvernig hægt væri að komast undan þeim skatti vakti verðskuldaða athygli og vangaveltur um hverja er hægt að skattleggja. Heimilisfestin horfir nokkuð ólíkt við á Íslandi en í nágrannalöndunum.

„Mér finnst að lögheimilið eigi ekki að skipta öllu máli og gerir það í sjálfu sér ekki þegar í harðbakkann slær. Það hvort Ísland getur skattlagt mann ræðst því ekki af því hvort hann fellir niður lögheimili sitt heldur af tengslum hans við landið – eignarhald á íbúð, fjölda dvalardaga hér á landi eftir brottflutninginn og öðrum tengslum, svo sem fjölskyldu- og atvinnutengslum,“ segir Ásmundur.

Aðhyllist breitt heimilisfestarhugtak

Þegar ákveðið er hvar menn eiga að borga skatta er í íslenskum rétti fyrst og fremst horft til fyrstu greinar laga um tekjuskatt. Þar segir að þeir sem eru heimilisfastir á Íslandi eigi að greiða skatt hér á landi. Sama gildir um þá sem hafa verið heimilisfastir hér en flutt brott. Þessi skylda varir í þrjú ár en getur varað skemur ef menn taka upp skattalega heimilisfesti erlendis. Þeir sem dvelja hér á landi lengur en 183 daga á ári, um það bil hálft ár, eiga að greiða hér skatta. Sama gildir í grunninn um þá sem starfa á íslenskum skipum eða loftförum.

„Ég aðhyllist sjálfur breitt heimilisfestarhugtak. Í Noregi er þetta þannig að þú sleppur ekki undan skattaklónni, jafnvel þótt þú losir þig við íbúð í landinu ef þú átt heimangengt hjá einhverjum öðrum, eins og til dæmis barni á þínu framfæri eða eitthvað slíkt.“

Eignaskattur undantekningin frekar en reglan

Ásmundur segir álagningu eigna- eða auðlegðarskatta á Norðurlöndunum heyra til undantekninga. „Norðmenn leggja á eignarskatt. Í Svíþjóð er enginn eignarskattur og heldur enginn erfðaskattur og enginn eignarskattur í Danmörku.“ Sömu sögu er að segja af Finnlandi, þar er enginn eignarskattur. Breið nálgun á heimilisfesti, eins og sú sem Ásmundur talar fyrir, myndi að öllum líkindum skjóta loku fyrir það að auðmenn gætu flúið land til að komast undan skatti – nema með því að skera á öll tengsl við Ísland.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .