Litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mælinga eða á bilinu 0-1,2 prósentustig, í nýjum Þjóðarpúls Gallup, en slétt 55% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina. Það er ríflega 10 prósentustigum meira en þau 44,3% sem styðja samanlagt ríkisstjórnarflokkana þrjá, en rétt undir kjörfylgi flokkanna þriggja í kosningunum 2017, þegar þeir fengu samanlagt 55,6% fylgi.

Nær 12% taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp og liðlega 9% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa. Næstu kosningar fara fram eftir tæpt ár, eða þann 25. september 2021. Í gær fóru fram eldhúsdagsumræður í kjölfar þingsetningar nýs þings, en ríkisstjórnin boðar 264 milljarða króna halla á næsta ári í fjárlögum ársins 2021.

Nú segjast næstum 24% að þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag, næstum 15% Samfylkinguna, hartnær 14% Vinstri græn, rúmlega 13% Pírata, rösklega 10% Viðreisn, ríflega 9% Miðflokkinn, nánast 7% Framsóknarflokkinn, nálega 4% Sósíalistaflokkinn og tæplega 4% Flokk fólksins.

Samsvarandi tölur í kosningunum sem fram fóru 28. október 2017 voru 25,3% Sjálfstæðisflokkur, 16,9% Vinstri græn, 12,1% Samfylkingin, 10,9% Miðflokkurinn, 10,7% Framsóknarflokkurinn, 9,2% Píratar, 6,9% Flokkur fólksins, 6,7% Viðreisn, 1,2% Björt framtíð, 0,2% Alþýðufylkingin og 0,1% Dögun.

Hér að neðan má bera saman fylgi flokkanna í Þjóðarpúlsi Gallup eftir mánuðum og við kosningafylgið: