Hvorki Landsbankinn né forsvarsmenn Slippfélagsins höfðu reynt að framlengja samning við Hempel-umboðið, sem var laus um síðustu áramót, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Samstarf við Hempel var grunnurinn að rekstri Slippfélagsins, Fór svo að Flügger náði samning við Hempel, sem hafði um 60% markaðshlutdeild í sölu á skipamálningu. Annað í rekstri Slippfélagsins var selt til Málningar.

Nú hefur Sigurjón M. Egilsson, blaðamaður og umsjónarmaður Sprengisands á Bylgjunni, upplýst á heimasíðu sinni að fjárfestar hafi óskað eftir að Fjármálaeftirlitið rannsaki söluferli tveggja fyrirtækja hjá Landsbankanum. Annars vegar sölu Slippfélagsins og hins vegar söluna á Bílaleigu Flugleiða samkvæmt.

Sigurjóns segir að í janúar sl. hafi hópur  manna lýsti yfir áhuga á að kaupa málningarverksmiðju Slippfélagsins, og það gegn staðgreiðslu. Hópurinn átti peninga og þurfti ekki lán til kaupanna. Áður en til þessa kom hafði Slippfélagið misst sinn sterkasta samning, það er framleiðslu og sölu á Hempels skipamálningu.

Í kærunni kemur fram, samkvæmt upplýsingum Sigurjóns, að starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans hafi sagt að bankinn væri ekki tilbúinn til að taka á móti staðgreiðslutilboði í Slippfélagið. Engin haldbær rök voru færð fyrir þessari afstöðu bankans og ekki var spurt að því hversu mikið fjárfestarnir væru tilbúnir að greiða fyrir Slippfélagið.  Þegar þetta var var Slippfélagið óselt og verið að leita kaupanda.

Reyndu ekki að tryggja áframhaldandi samning

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þykir aðdragandinn að sölu Slippfélagsins nokkuð sérstakur. Ísalind ehf., eignarhaldsfélagið að baki Slippfélaginu, var komið í mikinn greiðsluvanda á síðasta ári. Félagið var í eigu bræðranna Péturs Más og Ásgeirs Finnssona sem keyptu Slippfélagið í september 2007. Landsbankinn fékk Ísalind í fangið og setti Slippfélagið í söluferli. Þá var vitað að samningur Hempel við Slippfélagið var laus um síðustu áramót, en þau viðskipti voru kjölfestan í rekstri Slippfélagsins.

Sömu heimildir herma að hvorki Landsbankinn né forsvarsmenn Slippfélagsins hafi þá verið búnir að reyna að tryggja áframhaldandi samning við dönsku eigendur Hempel. Forsvarsmenn Hempel hafi hinsvegar frétt um fyrirhugaða sölu á Slippfélaginu eftir krókaleiðum og að eignarhaldfélag þess væri komið í þrot. Þeim mun hafa mislíkað það mjög og hafi aðeins séð tvo kosti í stöðunni. Annað hvort að opna sjálfir útibú á Íslandi eða leita eftir samstarfi við Flügger í Danmörku um sölu á vörum Hempel á Íslandi, en samvinna er með þessum félögum á hinum Norðurlöndunum. Varð síðari kosturinn ofaná og Málning hf. keypti síðan það sem eftir var af Slippfélaginu af Landsbankanum.