Slippurinn Akureyri hefur keypt fasteignir, vélar og tæki Martaks í Grindavík. Með kaupunum flytjast tíu starfsmenn Martaks til Slippsins frá og með morgundeginum, 1. júlí. Aðrir starfsmenn Martaks fylgja félaginu til áframhaldandi rekstrar.

Framkvæmdastjóri Slippsins segir í tilkynningu að það sé mikilvægt að vera með starfsstöð á Reykjanesi og geta þannig veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu og suðvestur horni landsins aukna þjónustu. Í Grindavík sé sjávarútvegurinn öflug atvinnugrein auk þess sem staðsetningin er ákjósanleg til að þjónusta fiskeldi sem er að byggjast upp á Reykjanesi sem og á Suðurlandi.

Eigandi Martaks segir að samvinna fyrirtækjanna hafi skilað góðum árangri á undanförnum árum, þessi viðskipti gefi tilefni til bjartsýni og frekari uppbyggingar á komandi misserum.

Martak hefur í gegnum árin sérhæft sig í tæknilausnum og þjónustu fyrir rækjuiðnaðinn en hefur síðustu ár í auknum mæli sinnt sambærilegum verkefnum fyrir fiskiðnaðinn. Fyrirtækið er með starfstöðvar á Íslandi og Kanada og mun þaðan sinna núverandi og nýjum viðskiptavinum. Martak hefur einnig á síðustu misserum boðið upp á heildstæðar lausnir til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.

Slippurinn býður heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, auk þess sem svonefndum landverkefnum hefur fjölgað á undanförnum árum. Framleiðslufyrirtækið DNG er í eigu Slippsins, öll framleiðsluvara og vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn “ og svo verður um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.

Húsnæði Martaks sem Slippurinn á Akureyri hefur keypt.