Stjórnunarkostnaður (e. administrative expensives) þrotabús Glitnis nam rúmlega 7,6 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta þýðir að heildarkostnaðurinn við skiptin er kominn upp í um 22 milljarða króna frá hruni. Stærsti hluti stjórnunarkostnaðar í fyrra var vegna erlendrar sérfræðiráðgjafar. Kostnaður vegna erlendrar lögfræðiráðgjafar nam 1,3 milljörðum króna og við aðra erlenda ráðgjöf 3,3 milljörðum króna.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir í samtali við Viðskiptablaðið ástæðuna fyrir auknum kostnaði við erlenda ráðgjöf meðal annars skýrast af undirbúningi fyrir nauðasamninga Glitnis.

Steinunn telur kostnaðinn ekki mikinn miðað við umfangið. „Eins ég hef bent á eru allir þeir sem vinna við þetta á ábyrgð þeirra tveggja aðila sem sitja í slitastjórninni. Þannig að ef þú lítur á hver kostnaðurinn er af þessum skiptum, sem tekur mið af umfanginu sem er gríðarlega mikið, þá er kostnaðurinn sem fellur til vegna þeirra sem bera ábyrgð á ferlinu ekki mikill í því samhengi."

Um áramótin síðustu voru eignir Glitnis metnar á 934 milljarða króna. Skuldir námu á móti 2.431 milljörðum króna. Eigið fé Glitnis var því neikvætt um 1.497 milljarða króna. Af eignunum voru um síðustu áramót um 462 milljarðar eða um helmingum eigna reiðufé eða ígildi þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.