Búið er að kjósa skilanefnd yfir félaginu LazyTown Production 2012 ehf., dótturfélagi Latabæjar. Ákveðið var af hálfu hluthafa félagsins á hluthafafundi 17. október að slíta félaginu og voru þeir Jónas Rafn Tómasson og Sigurður Stefánsson valdir í skilanefnd. Skilanefnd hefur boðað til fundar með lánardrottnum og hluthöfum félagsins á skrifstofu KPMG 27. desember næstkomandi.

Hlutafélagalög leyfa að hluthafar ákveði sjálfir að slíta félagi og þá er skipuð skilanefnd af hálfu hluthafa. Á Íslandi hefur þó verið algengara undanfarin ár að félögum sé slitið í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar. Jónas Rafn Tómason segir í samtali við Viðskiptablaðið að ferlið taki yfirleitt um þrjá til sex mánuði.

„Skilanefndin tekur yfir starfsemi stjórnar og annast um að slíta félaginu í umboði hluthafa,“ segir Jónas.