Vinstri græn fengju 28,6% ef greidd yrðu atkvæði nú en Sjálfstæðisflokkurinn sem verið hefur stærsti flokkurinn að jafnaði fengi 22,3%, sem er undir kjörfylgi hans síðast.

Píratar og Samfylkingin eru nálega jafnstór, en Miðflokkurinn mælist með nálega tvöfalt meira fylgi en gamli Framsóknarflokkurinn sem rétt nær yfir 5% markið.

Sama gildir um Fólk flokksins sem virðist hafa misst mikið síðan hann fór hæst í skoðanakönnunum nýlega, en svo virðist sem kjósendur hyggist refsa flokkunum sem slitu ríkisstjórnarsamstarfinu því bæði Viðreisn og Björt framtíð eru með í kringum 3% atkvæða og því líklegust til að detta út af þingi.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins , Stöðvar 2 og Vísis en niðurstaða hennar er sem hér segir:

  • Vinstrihreyfingin-grænt framboð - 28,6% og 20 þingmenn
  • Sjálfstæðisflokkurinn - 22,3% og 15 þingmenn
  • Samfylkingin - 11,5% og 7 þingmenn
  • Píratar - 11,4% og 8 þingmenn
  • Miðflokkurinn - 8,9% og 6 þingmenn
  • Flokkur fólksins - 5,8% og 4 þingmenn
  • Framsóknarflokkurinn - 5,5% og 3 þingmenn
  • Viðreisn - 3% og engan þingmann
  • Björt framtíð 2,6% og engan þingmann

Aðrir flokkar fengu 1,4%, en um 9% sögðust ekki ætla að kjósa eða að skila auðu, en einungis 11% sögðust vera óákveðin. Tæplega 18% til viðbótar svöruðu svo ekki spurningunni.