Meint markaðsmisnotkun VBS fjárfestingabanka, Stoða (áður FL Group) og Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) með hlutabréf í FL Group í byrjun árs 2008 er til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) eftir að slitastjórn VBS vísaði málinu þangað. Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins í dag.

Slitastjórnin höfðaði einnig einkamál á hendur Stoðum og TM vegna málsins. Þingfesta átti það mál 27. nóvember síðastliðinn en áður en af því varð var samið um lyktir þess.

Samkvæmt fréttinni eru málavextir þeir að í upphafi ársins 2008 gerðu Jón Þórisson, þáverandi forstjóri VBS, og Jón Ásgeir Jóhannesson, þá stjórnarformaður og aðaleigandi FL Group, með sér samkomulag um að FL Group myndi leggja inn í VBS peningamarkaðsinnlán sem síðan átti að nota til að kaupa hlutabréf í FL Group. Í lok janúar og í byrjun febrúar 2008 lagði FL Group síðan inn 1,5 milljarða króna í formi peningamarkaðsinnlána. Síðar var dótturfélag þess, TM, látið taka við fjármögnuninni. Alls lagði TM inn í VBS rúma 2,3 milljarða króna í peningamarkaðsinnlánum í febrúar 2008. Hluti var notaður til að endurgreiða FL Group og afgangurinn að mestu notaður til að kaupa enn fleiri bréf í Stoðum.

Skrifað var undir skaðleysisyfirlýsingu vegna þessa. Í henni fólst að FL Group myndi verja VBS fyrir öllu mögulegu tapi vegna viðskiptanna. Forsvarsmenn TM hafa ávallt neitað því að hafa vitað að peningamarkaðsinnlánin hafi verið notuð með þeim hætti sem þau voru. Áður en VBS fór í þrot endurgreiddi bankinn TM lánin með eignum. Slitastjórn VBS hefur höfðað riftunarmál vegna þeirra gjörninga.

Í fréttinni segir enn fremur að samkvæmt gögnum sem blaðið hefur undir höndum gengu viðskiptin þannig fyrir sig að tveir miðlarar VBS sáu um hlutabréfakaupin og var tilgangurinn sá að reyna að halda gengi FL Group, sem þá stóð höllum fæti, yfir tíu krónum á hlut. Það tókst ekki til lengdar. Í lok júlí 2008 keypti Styrkur Invest, dótturfélag Baugs, öll hlutabréfin í FL Group sem VBS hafði keypt fyrir peningamarkaðsinnlán TM. Markaðsvirði þeirra var þá um 1,4 milljarðar króna og ljóst að mikið tap hafði myndast á viðskiptunum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur málið verið sent til FME til rannsóknar þar sem slitastjórninni þyki ljóst að forsvarsmenn þeirra aðila sem komu að fléttunni hafi gerst sekir um saknæma og ólögmæta háttsemi