Slitastjórn Glitnis deilir við norska útvegsfyrirtækið Aker Seafoods fyrir dómsstólum um uppgjör á afleiðusamningum sem gerð voru fyrir hrun. Málið hefur verið tekið nokkrum sinnum fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem gögn hafa verið lögð fram. Síðasti gagnapakkinn var lagður fram í dómssal í gær og er nú beðið eftir því að aðalmeðferð málsins komist á dagskrá.

Slitastjórnin stefndi norska útgerðarfyrirtækinu í fyrra. Aker Seafoods er að stórum hluta í eigu félaga sem tengjast Kjell Inge Røkke, einum ríkasta manni Noregs. Árið 2008 var auður hans metinn á 12,5 milljarða norskra króna, jafnvirði 270 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Hann var á þeim tíma í sjöunda sæti á lista yfir ríkustu einstaklinga í Noregi.

Eftir því sem næst verður komið snýst deilan um uppgjör á framvirkum gjaldeyrissamningum og hvort skuldbindingar hafi fallið niður þegar Glitnir fór í slitameðferð haustið 2008. Ekki liggur fyrir um hversu háar upphæðir er að ræða.