Slitastjórn Kaupþings á í málaferlum gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar og konu hans, Önnu Lísu Sigurjónsdóttur. Eftir því sem næst verður komist tengist málið yfirfærslu á lánum sem Hreiðar fékk hjá Kaupþingi til kaupa á hlutabréfum yfir í einkahlutafélag og tengd atriði. Hreiðar var skráður eigandi að öllu hlutafé einkahlutafélagsins sem bar nafn hans en kona hans var í stjórn þess með honum. Telja má einsdæmi að eiginkonur tengist málum fyrrverandi bankastjóra og forstjóra föllnu bankanna.

Hreiðar stofnaði einkahlutafélagið árið 2006 en færði skuldir sínar inn í það árið eftir. Skuldir félagsins við lánastofnanir námu 4,2 milljörðum króna í lok árs 2007 en voru komnar í sex milljarða í lok árs 2008. Hlutabréf Hreiðar í Kaupþingi voru trygging fyrir lánum hans. Þau urðu hins vegar verðlaus þegar bankinn fór í þrot í október árið 2008.

Gleymdi að borga stofnfé

Slitastjórn Kaupþings hefur samið við fjölda þeirra fyrrverandi starfsmanna Kaupþings sem fengu lán til hlutabréfakaupa. Verr gekk að semja við fyrrverandi æðstu stjórnendur bankans og fóru þau mörg hver fyrir dómstóla. Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því árið 2011 að Hreiðar Már hafi ekki sýnt vilja til að semja um skuldir sínar og hafi slitastjórnin því farið í mál við hann. Þá sagði fréttastofan m.a. að slitastjórn Kaupþings lítur svo á að félag Hreiðars hafi ekki verið réttilega stofnað á sínum tíma þar sem gleymst hafi að greiða 500 þúsund króna stofnfé inn í það. Eftir því sem fréttastofa komst næst hafði lögmönnum verið falið að vinda ofan af félaginu og í kjölfarið krefja Hreiðar Má Sigurðsson persónulega um fjárhæðina.

Hvorki lögmaður slitastjórnar Kaupþings né Hreiðars og Önnu Lísu vildu tjá sig um málið þegar vb.is leitaði eftir því.

Mál slitastjórnarinnar gegn Hreiðari og Önnu Lísu var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þetta var annað skiptið sem málið var tekið fyrir í dóminum en það hefur verið í gagnaöflunarfrestun. Það sama var upp á teningnum í morgun en málinu var frestað fram í maí af sömu ástæðu og áður.