Slitastjórn Glitnis hf. hefur tilkynnt að greiðslur til forgangskröfuhafa Glitnis fari fram á morgun, föstudaginn 16. mars 2012. Slitastjórnin áformar að greiða beint til forgangskröfuhafa en einnig inn á sérstaka geymslureikninga. Síðan er það ætlun slitastjórnarinnar að greiða mánaðarlega af geymslureikningum til forgangskröfuhafa jafnóðum og endanleg úrlausn um kröfuna liggur fyrir og kröfuhafar uppfylla skilyrði til að fá úthlutað fjármunum af geymslureikningum.

Með þeim breytingum sem gerðar voru í vikunni á gjaldeyrishöftum á Íslandi voru sérstök ákvæði sett um greiðslur í íslenskum krónum til erlendra aðila. Samkvæmt nýjum lögum þarf samþykki Seðlabanka Íslands fyrir úthlutun greiðslna í íslenskum krónum til forgangskröfuhafa. Í tilkynningu skilanefndarinnar segir að af þeim sökum verði allur sá hluti úthlutunarinnar sem er í íslenskum krónum greiddur inn á geymslureikning í íslenskum krónum meðan beðið er heimildar Seðlabanka Íslands.

53 opinberir aðilar í Bretlandi, þ.m.t. sveitastjórnir og háskólar, áttu heildsöluinnlán hjá Glitni í októbermánuði 2008. Hæstiréttur staðfest í nóvember á síðasta ári að þessi heildsöluinnlán nytu forgangs. Greiðslur til forgangskröfuhafa verða í myntkörfu sem styðst við gengi krónunnar 22.apríl 2009. Heildarfjárhæð forgangskrafna, sem greiddar verða í þessari úthlutun er kr. 105,6 milljarðar.