„Verkefnin okkar breytast ekkert þótt nauðasamningar hafi tafist. Fólk hefur hætt og leitað annað og stundum hefur það ekki verið endurráðið“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.. Hjá slitastjórninni vinna nú um 40 manns.

Vísir greindi frá því í dag að átta starfsmönnum slitastjórnar Kaupþings hafi verið sagt upp þar sem enn sé beðið svara frá Seðlabankanum vegna nauðasamninga og sé ljóst að þeir muni ekki ganga í gegn á næstunni. Feldís Lilja Óskarsdóttir sem situr í slitastjórn Kaupþings, segir að af þeim sökum hafi slitastjórnin þurft að fara í ákveðna endurskipulagningu innanhúss.

Vb.is spurði Steinunni Guðbjartsdóttur hvort slitastjórn Glitnis hafi þurft að grípa til svipaðra ráða vegna tafa á nauðasamningum.

„Við högum okkar starfsmannafjölda eftir verkefnum. Við vinnum okkur niður. Þegar einhverjum verkefnum fækkar þá fækkar starfsfólki. En það hefur ekki verið undanfarið,“ segir hún og bendir á að lítil breyting hafi orðið á eignasafni þrotabús Glitnis. Verðmæti eigna nemur um 850 milljörðum króna.