Slitastjórn Glitnis hefur stefnt Lífeyrissjóði verslunarmanna vegna óuppgerðra gjaldmiðlasamningum sem lífeyrissjóðurinn gerði við Glitni fyrir hrun. Slitastjórnin krefst 19 milljarða króna auk dráttarvaxta. Lífeyrissjóðurinn hafði gert samninga við Glitni upp á rúma 93 milljarða króna árið 2008. Lífeyrissjóðurinn reyndi að semja um málið. Þegar ekkert gekk setti sjóðurinn málið í hendur lögmanna í byrjun árs.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að samningar lífeyrissjóðsins séu 72 talsins. Í frétt RÚV segir að afleiðusamningar eru áhættusamir skammtímasamningar þar sem veðjað er á gengissveiflur íslensku krónunnar. Samkvæmt lögum sé lífeyrissjóðum einungis heimilt að eiga viðskipti með afleiður til þess að draga úr áhættu. Lífeyrissjóður verslunarmanna nýtti sér lagaheimildina til að gera fjölda afleiðusamninga til að verjast því að tapa á erlendum eignum ef gengi íslensku krónunnar myndi lækka. Fram kemur í stefnunni að vandséð sé hvaða hætta steðjaði að sjóðnum þar sem ekki þurfi að flytja eignir hans heim til lífeyrisgreiðslna fyrr en eftir nokkra áratugi.

Reyndu að semja

Fjallað er um gjaldmiðlasamningana í síðustu ársskýrslu Lífeyrissjóðs verslunarmanna . Þar er tekið fram að þar sem ekki hafi tekist að semja um uppgjör samninganna við skilanefnd og slitastjórn hafi stjórn lífeyrissjóðsins falið lögmönnum sínum í janúar að fela lögmönnunum að fylgja málum eftir með eða án atbeina dómstóla til að gæta ítrustu hagsmuna sjóðsins í þeim tilgangi að ljúka málinu og binda enda á þá óvissu sem fylgir óuppgerðum samningum.

Þá segir í skýrslunni að sjóðurinn gerði á sínum tíma skilanefndum bankanna tilboð um uppgjör samninganna byggt á forsendum fyrrgreindra sérfræðiálita og er metin brúttóskuld sjóðsins í árslok með áætluðum vöxtum upp á rétt rúma 20 milljarða króna. Sú fjárhæð er færð í efnahagsreikninginn.