Slitastjórn Glitnis mun á næstu dögum stefna níu manns til greiðslu skaðabóta að upphæð sex og hálfur milljarður króna vegna víkjandi láns sem veitt var Baugi í desember 2007, að því er Fréttablaðið greinir frá í dag. Um er að ræða alla sjö stjórnarmenn Glitnis, Lárus Welding þáverandi bankastjóra og Jón Ásgeir Jóhannesson.

Í stjórn Glitnis á þessum tíma sátu Þorsteinn M. Jónsson sem var stjórnarformaður, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Pétur Guðmundarson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir.

Í frétt Fréttablaðsins segir að stefnan hefur ekki verið birt neinum nímenninganna en verið boðuð í samtölum við lögmenn sumra þeirra.

Málið snýst um fimmtán milljarða víkjandi lán sem áhættunefnd Glitnis samþykkti að veita Baugi þann 20. desember 2007. Lánið fékk Baugur til þess að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group. Baugur var stærsti eigandi FL Group á þeim tíma. Skaðinn af lánveitingunni er metinn á um 6,5 milljarða króna.