Svo kann að fara að íransættaða auðkýfingurinn Robert Tchenguiz verði borinn út af heimili sínu í London í Bretlandi. Þetta er tilkomið vegna 183 milljóna punda skuldar Tchenguiz við slitastjórn Kaupþings. Þetta jafngildir um 35 milljörðum íslenskra króna. Slitastjórnin hefur eignast hús Tchenguiz ásamt fleiri eignum hans í málaferlum á hendur honum á eyjunni Guernsey. Húsið er metið á 50 milljónir punda, jafnvirði 9,5 milljarða íslenskra króna. Óvíst er með áfrýjun í málinu.

Breskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið upp á síðkastið. Þar á meðal er Daily Mail , sem segir hús Tchenguiz í næsta nágrenni við Royal Albert Hall.

Tchenguiz var á meðal vildarviðskiptavina Kaupþings í Bretlandi og sat um tíma í stjórn Exista, helsta eiganda bankans. Tchenguiz fékk lánaða hjá bankanum 1,6 milljarða punda rétt áður en bankinn fór á hliðina. Það jafngildir um 300 milljörðum íslenskra króna.

Í umfjöllun Daily Mail er ferill Robert Tchenguiz rifjaður upp, s.s. að fyrir tíu árum hafi hann og Vincent bróðir hans átt eignir sem metnar voru á 4,5 milljarða punda. Verðmætið er nú komið niður í 850 milljónir, jafnvirði 160 milljarða íslenskra króna.