Kaupþing hf. og sautján íslenskir lífeyrissjóðir ásamt undirsjóðum þeirra hafa náð samkomulagi um uppgjör á afleiðusamningum. Eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu skömmu fyrir jól var samkomulag í burðarliðnum sem var skammt frá undirritun á þeim tíma.

Undir samkomulagið falla allar kröfur aðila á hendur hvorum öðrum vegna gjaldmiðlavarna- og vaxtaskiptasamninga auk annarra afleiðusamninga sem gerðir voru til að draga úr gengis- og vaxtaáhættu í eignasöfnum lífeyrissjóðanna eftir því sem fram kemur í sameiginlegri tilkynningu Kaupþings og lífeyrissjóðanna. Samkvæmt útreikningum lífeyrissjóðanna mun samkomulagið ekki leiða af sér breytingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga.

Í tilkynningunni kemur fram að samkomulagið er mikilvægur áfangi fyrir báða aðila þar sem það eyðir óvissu um eignir og skuldir aðila sem að öðrum kosti hefði þurft að útkljá með langvarandi málarekstri fyrir dómstólum.

Gengið skiptir máli

Fjallað var um það í lok nóvember í Viðskiptablaðinu að skammt væri í að samkomulag milli lífeyrissjóðanna og Kaupþings myndi verða tilkynnt. Helsta ágreiningsefni lífeyrissjóðanna og slitastjórnarinnar hefur verið á hvaða gengi eigi að gera upp afleiðusamningana. Ekki kemur fram í tilkynningunni á hvaða gengi samningarnir eru gerðir upp.

Lífeyrissjóðirnir höfðu gert afleiðusamninga í aðdraganda bankahrunsins tengda við gengi íslensku krónunnar. Í stuttu máli gerðu sjóðirnir ráð fyrir að krónan myndi hækka á ný þegar margir samninganna voru gerðir og standa því í skuld við þrotabú gömlu bankanna.

Það getur skipt sköpum fyrir sjóðina hvaða gengi er kveðið á um í endanlegu uppgjöri og í heildina litið er um að ræða viðræður upp á fleiri milljarða íslenskra króna. Þá eiga margir sjóðanna kröfur á hendur þrotabúum bankanna sem notaðar eru til skuldajöfnunar. Sem dæmi um hve mikilvægir þessir samningar eru var í lok árs 2011 áætluð skuld Gildis lífeyrissjóðs vegna óuppgerðra gjaldmiðlasamninga 2.912 milljónir króna í ársreikningi sjóðsins.