Slitastjórn Kaupþings hefur stefnt nokkrum af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Sjóðirnir eru krafðir um milljarða króna en flest málin fjalla um hvort lífeyrissjóðirnir hafi fengið greiðslur frá Kaupþingi of snemma síðustu mánuði fyrir hrun. Slitastjórnin höfðaði tugi riftunarmála í júní.

Eins og greint var frá í gær er Vestmannaeyjabær meðal þeirra sem slitastjórnin hefur stefnt.

Slitastjórnin hefur stefnt bæði innlendum og erlendum aðilum. Á meðal þeirra eru nokkrir stærstu lífeyrissjóða landsins. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag var rætt við Þórarinn V. Þórarinsson sem er lögmaður nokkurra þeirra lífeyrissjóða sem hefur verið stefnt. „Mér sýnist að slitastjórnin hafi litið svo á að hún þyrfti að senda út stefnur alls staðar þar sem einhver möguleiki væri á því að riftun myndi fást fram,“ sagði Þórarinn. Hann telur grundvöllinn í sumum stefnunum veikan.

Þórarinn vildi í viðtalinu ekki gefa upp nákvæmlega um hvaða lífeyrissjóði er að ræða. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, staðfesti þó við fréttastofu RÚV að sjóðnum hefði verið stefnt. Ekki er vitað um hve háar fjárhæðir er að ræða.