Slitastjórn Landsbankans hefur stefnt Sigurjóni Þ. Árnasyni, Halldóri Kristjánssyni, Kjartani Gunnarssyni, Andra Sveinssyni, Þorgeiri Baldurssyni og Svöfu Grönfeldt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Slitastjórnin krefst þess að þau greiði 14 milljarða króna, auk 10,5 milljóna dala og um 10,8 milljóna evra auk vexti. Það eru alls um 17,2 milljarðar króna. Sigurjón og Halldór voru bankastjórar  og fjórmenningarnir sátu í bankaráði Landsbankans við fall hans.

Þá er þess krafist að Jón Þorsteinn Oddleifsson, forstöðumaður fjárstýringar bankans fyrir hrun, greiði með hinum stefndu rúmlega 11 milljarða króna auk vaxta. Í stefnunni eru taldir upp 25 vátryggjendur sem skulu verða dæmdir til þess að greiða með hinum stefndu. Upphæðir á hvern og einn vátryggjanda eru listaðar í kærunni. Heildarfjárhæð á hendur vátryggjendum er um 17,6 milljarðar króna á núverandi gengi en þær eru gefnar upp í pundum í kærunni.

Alls nemur upphæðin um 45,8 milljörðum króna.

Krefjast skaðabóta vegna gáleysis

Slitastjórnin krefst þess að stjórnendur greiði slitastjórn skaðbætur „vegna gáleysis sem að leiddi til þess að greiddir voru út verulegar fjárhæðir út úr Landsbanka íslands þann 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær. Þann dag, sem var síðasti starfsdagur bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir og skipaði honum skilanefnd, runnu umtalsverðir fjármunir til verðbréfasjóða Landsvaka, Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka og MP fjárfestingarbanka,“ segir í stefnunni. MP fjárfestingarbanki heitir nú EA fjárfestingarfélag.

Björgólfi Guðmundssyni, sem sat í bankaráði bankans, er ekki stefnt. Hann hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.