Slitastjórn Landsbankans hefur stefnt endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers (PwC) fyrir að samþykkja ranga efnahagsreikninga og árshlutauppgjör auk þess að ofmeta veð og tryggingar fyrir stórum útlánum. Þetta, að mati slitastjórnarinnar, birti ranga mynd af stöðu bankans.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans, staðfestir að stefnan hafi verið send út.

RÚV hefur upp úr stefnu slitastjórnar að PWC, sem endurskoðaði reikninga gamla Landsbankans, hafi vitað um bága stöðu bankans við gerð reikninga fyrir árið 2007, meira en níu mánuðum áður en Fjármálaeftirlitið þurfti að grípa inn í rekstur bankans í október 2008.

Slitastjórn og skilanefnd Landsbankans kynntu málið á kröfuhafafundi í desember árið 2010. Á fundinum kom fram að bankinn hafi verið kominn undir lögmæt eiginfjárhlutföll áður en hann féll haustið 2008. Herdís Hallmarsdóttir, sem situr í slitastjórn, taldi m.a. að ekki hafi verið rétt staðið að flokkun venslaðra aðila. Það hafi skekkt áhættuskuldbindingar bankans, svo sem gagnvart félögum tengdum og í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Björgólfur átti ásamt föður sínum rúman 40% hlut í bankanum um nokkurra ára skeið. Félög þeim tengd voru á sama tíma meðal helstu lántakar bankans. Þá sakaði slitastjórn og skilanefnd stjórnendur gamla bankans jafnframt um að hafa veitt endurskoðendur rangar upplýsingar við gerð ársuppgjörs fyrir árið 2007 og yrði þeir krafðir um bætur.

PwC hafði þá þegar verið tilkynnt að slitastjórn og skilanefnd, sem nú er hætt störfum, myndu hugsanlega fara fram á bætur vegna vanrækslu við endurskoðun á ársreikningum bankans.