Slitastjórn gamla Landsbankans (LBI) óttast að lítil þátttaka kröfuhafa í atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi geti komið í veg fyrir að samningurinn verði að veruleika. Þetta kemur fram í tilkynningu sem slitastjórnin sendi kröfuhöfum og greint er frá í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að slitastjórnin hafi kynnt kröfuhöfum áætlun sem miðar að því að frumvarp að nauðasamningi verði samþykkt fyrir dómstólum hér á landi í desember. Náist samþykkt ekki fyrir áramót mun 39% stöðugleikaskattur leggjast á eignir búsins.

Slitastjórnin býst við að hægt verði að greiða 218 milljarða króna út verði nauðasamningur samþykktur, en sú fjárhæð muni lækka í 72 milljarða króna verði stöðugleikaskattur að veruleika. Endurheimtur almennra kröfuhafa færu þannig úr 13% í 4%, sem jafngilti 70% rýrnun á kröfuréttindunum.

Hvetur stjórnin kröfuhafa því til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni um nauðasamninginn, en 60% þeirra þurfa að veita honum samþykki til þess að hann geti orðið að veruleika.