Slitastjórn Landsbankans hefur stefnt þremur fyrrverandi starfsmönnum bankans til að greiða þrotabúinu samtals 1,2 milljarða króna vegna hlutabréfakaupa árin 2007 og 2008, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Starfsmennirnir eru Sigurjón Þ. Árnason, sem var bankastjóri, Steinþór Gunnarsson, sem var forstöðumaður verðbréfamiðlunar, og Yngvi Örn Kristinsson, sem var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs og ráðgjafi Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra eftir hrun.

Málið snýst um fimm viðskipti Landsbankans með hlutabréf í bankanum sjálfum, Straumi og Eimskipum, á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til 25. júlí 2008. Alls voru bréf keypt fyrir 1,2 milljarða.

Slitastjórnin byggir á því að þremenningunum hafi átt að vera ljóst allan þennan tíma að verulega væri farið að halla undan fæti í efnahagslífinu og að kaupin væru ekki skynsamleg. Þau hafi auk þess verið ólögleg, farið yfir lögbundin mörk um hámarkseign í eigin bréfum og tilteknum félögum, verið í eigu bankans of lengi og engin tilraun gerð til að selja þau.

Í greinargerð Sigurjóns segir að viðskiptin hafi alls ekki verið saknæm, þótt bréfin hafi rýrnað að virði eða orðið verðlaus löngu síðar.