Slitastjórn gamla Landsbankans þarf að skila þrotabúi VBS fjárfestingarbanka hlutafé í félaginu Vingþóri upp á rúma 4,3 milljarða króna, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Í úrskurðinum var rift greiðslu VBS fjárfestingarbanka á láni til Landsbankans fyrir rúmum þremur árum. Greiðslan á láninu var í formi afsals VBS á öllu hlutafé í félaginu Vingþóri ehf.

Í úrskurðinum kemur m.a. fram að VBS hafi ekki getað greitt af lánum sínum strax í febrúar árið 2008. Landsbankanum hafi átt að vera það ljóst að bankinn var ógjaldfær í nóvember árið 2009. Brugðið var á það ráð innan VBS að setja útlán og fasteignir inn í félagið Vingþór og láta það upp í greiðsluna. Í Vingþóri var m.a. um 60% af útlánasafni VBS, sem hefði átt að segja sína sögu um slæma stöðu bankans. Í úrskurðinum frá í morgun segir m.a. að greiðslan hafi verið óvenjuleg þar sem lán eigi að greiða með peningum.

Tekið er undir ógjaldfærni VBS þegar bankinn afsalaði sér öllu hlutafé í Vingþóri til Landsbankans.

Lögmaður þrotabús VBS segir úrskurðinn mikilvægan fyrir búið. Í framhaldi af honum þurfi að fara yfir málið og þau gögn sem liggi fyrir. Reynist verðmæti þeirra eigna Vingþórs hafa rýrnað síðan gamli Landsbankinn eignaðist félagið þá þurfi hann að greiða það sem upp á vantar í reiðufé.

Úrskurður héraðsdóms