Slitastjórn VBS fjárfestingarbanka hefur ákveðið að framlengja frest til að lýsa kröfum í þrotabú bankans um tæpan mánuð. Frestur rennur út þann 12. nóvember í stað 14. október næstkomandi.

„Því er skorað er á alla þá sem telja til hvers kyns skulda eða annarra réttinda á hendur VBS fjárfestingarbanka hf. eða eigna í umráðum bankans að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn bankans innan tilgreindra tímamarka en eftir framlengingu frestsins rennur kröfulýsingarfrestur út þann 12. nóvember 2010,“ segir í tilkynningu frá slitastjórninni.

Upphaflega var kröfuhafafundur boðaður þann 9. nóvember næstkomandi. Honum verður frestað um mánuð og verður haldinn 9. desember samkvæmt tilkynningu frá slitastjórn VBS fjárfestingarbanka.