Slitastjórn Landsbankans vill sækja tæpa 40 milljarða króna í skaðabætur frá Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans, Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs í bankastjóratíð þeirra. Í máli slitastjórnarinnar á hendur þeim verður látið reyna á stjórnendaábyrgð sem bankinn keypti og var tryggingafélögum stefnt fyrir dóm.

Málin eru tvö og verða þau tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Elín Sigfúsdóttir tengist öðru málinu ásamt þeim Sigurjóni og Halldóri þeirra. Það tengist bótaskyldu vegna vanrækslu stjórnenda í starfi fyrir að láta hjá líða að innheimta ábyrgð Kaupþings í Lúxemborg upp á 18 milljarða króna vegna lánveitingar bankans til fjárfestingarfélagsins Grettis. Félagið var í eigu Björgólfsfeðga, helstu eigenda Landsbankans fyrir hrun.

Hitt málið sem þeim Sigurjóni og Halldóri er stefnt í en ekki Elínu, tengist láni sem Landsbankinn veiti Straumi Burðarási fjárfestingarbanka 2. október 2008, tæpri viku áður en Landsbankinn fór í þrot. Helsti hluthafi Straums Burðaráss á þessum tíma var Björgólfur Thor Björgólfsson.

Slitastjórnin greindi frá því að hún ætlaði að höfða skaðabótamálin í desember árið 2010, m.a. á þeim forsendum að samkvæmt hlutafélagalögum eru stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skyldir til að bæta hlutafélagi það tjón sem þeir hafa valdið félaginu í störfum sínum.